Covenant Protestant Reformed Church
Bookmark and Share

Aþanasíusarjátningin

 

Prófessor Einar Sigurbjörnsson þýddi.

1 Sérhver sá sem hólpinn vill verða, verður umfram allt að halda almenna trú 2 og sá sem ekki varðveitir hana hreina og ómengaða mun á efa glatast að eilífu.

3 En þetta er almenn trú, að vér heiðrum einn Guð í þrenningu og þrenninguna í einingu 4 og vér hvorki ruglum saman persónunum né greinum sundur veruna.

5 Því að ein er persóna föðurins, önnur sonarins, önnur heilags anda.

6 En guðdómur föður, sonar og heilags anda er einn, jöfn er dýrð þeirra og hátignin jafneilíf.

7 Svo sem faðirinn er, þannig er sonurinn, þannig er og heilagur andi. 8 Faðirinn er óskapaður, sonurinn er óskapaður, heilagur andi er óskapaður. 9 Faðirinn er ómælanlegur, sonurinn er ómælanlegur, heilagur andi er ómælanlegur. 10 Faðirinn er eilífur, sonurinn er eilífur, heilagur andi er eilífur 11 og samt sem áður eru ekki þrír eilífir, heldur einn eilífur 12 eins og þeir eru ekki þrír óskapaðir og ekki þrír ómælanlegir, heldur einn óskapaður og einn ómælanlegur. 13 Á sama hátt er faðirinn almáttugur, sonurinn almáttugur, heilagur andi almáttugur. 14 Þó eru ekki þrír almáttugir, heldur einn almáttugur.

15 Þannig er faðirinn Guð, sonurinn Guð, heilagur andi Guð 16 og samt ekki þrír guðir, heldur einn Guð. 17 Þannig er faðirinn Drottinn, sonurinn Drottinn, heilagur andi Drottinn 18 og samt eru ekki þrír drottnar, heldur einn Drottinn.

19 Því að eins og kristinn sannleikur knýr oss til að játa hverja persónu fyrir sig bæði Guð og Drottin svo bannar almenn trú oss að segja guði eða drottna þrjá.

20 Faðirinn er af engum gerður og ekki heldur skapaður eða fæddur.

21 Sonurinn er ekki gerður og ekki skapaður, heldur fæddur af föðurnum einum.

22 Heilagur andi er ekki gerður og ekki skapaður, og ekki heldur fæddur, heldur útgengur hann af föður og syni.

23 Þess vegna er einn faðir, ekki þrír feður, einn sonur, ekki þrír synir, einn heilagur andi, ekki þrír heilagir andar 24 og í þessari þrenningu er ekkert fyrr eða seinna, ekkert meira eða minna, 25 heldur eru allar persónurnar þrjár jafneilífar og hver annarri jafnar, til þess að, eins og að ofan greindi, vegsömuð sé í öllu bæði þrenningin í einingu og einingin í þrenningu.

26 Sá sem því vill hólpinn verða, verður að halda þetta um þrenninguna.

27 En það er og nauðsynlegt til eilífs hjálpræðis að trúa í einlægni holdgun Drottins vors Jesú Krists.

28 Þess vega er það rétt trú, að vér trúum og játum, að Drottinn vor Jesús Kristur, Guðs sonur, sé bæði Guð og maður jafn.

29 Hann er Guð, fæddur frá eilífð af veru föðurins og hann er maður, fæddur í tímanum af veru móðurinnar. 30 Fullkominn Guð, fullkominn maður, með skynsemigæddri sál og mannlegu holdi. 31 Föðurnum jafn samkvæmt guðdóminum, föðurnum síðri samkvæmt manndóminum.

32 Og þótt hann sé bæði Guð og maður, er hann samt ekki tveir, heldur einn Kristur. 33 Einn er hann ekki vegna þess að Guð breyttist í mann, heldur af því að Guð tók á sig manndóm. 34 Í heild er hann einn, ekki af því að eðlin blandist, heldur af því að persónan er ein. 35 Því að á sama hátt og skynsemigædd sál og hold er einn maður, svo er Guð og maður einn Kristur.

36 Hann var píndur oss til hjálpræðis, steig niður til heljar, reis upp frá dauðum, 37 steig upp til himna, situr við hægri hönd föðurins ogmun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. 38 Við endurkomu hans munu allir menn rísa upp með líkömum sínum. 39 Og þeir sem gott hafa gert munu ganga inn til eilífs lífs, en þeir sem illa hafa gert í eilífan eld.

40 Þetta er almenn trú. Sérhver sem ekki trúir henni í einlægni og staðfastlega mun ekki geta frelsast.

Amen.